Útungun og uppeldi.

Svo sem mánuði áður en það á að fara að safna eggjum til útungunar er gott að setja hænurnar á útungunarvarpfóður 2 fyrir hænur í stofnrækt, það er vítamin og snefilefnabætt þannig að útungunarprósentan hækkar verulega við það að nota þetta fóður.

Safnið aðeins hreinum eggjum og gallalausum og geymið þau á svölum stað við 8 - 15°C. Látið eggin liggja á hliðinni og snúið þeim daglega.

Eftir að eggin eru komin í útungunarvélina þarf að passa uppá rakann sem ætti að vera um 30 - 40% og hitinn 38°C fram að 18 degi en þá þarf að auka rakann í 80 - 90% til þess að ungarnir eigi auðveldara með að komast úr skurninu. Mjög erfitt er að ná svona háum raka nema með því að leiða rakamettað loft í vélina. Látið útungunarvélina vera lokaða á klaktímanum til að forðast rakatap úr henni. Á 21. degi eru skurnin svo tekin frá ungunum rakinn minnkaður og hitinn lækkaður í 37°C en ungarnir látnir vera í vélinni fram á næsta dag þegar þeir eru færðir þangað sem þeir eiga að vera í uppeldinu. Bækluðum ungum sem ekki geta hreyft sig eðlilega ætti að farga strax, þeir lagast yfirleitt ekki.

Um það bil sólarhring áður en ungarnir eru settir á uppeldisstaðinn þarf að koma fyrir hitagjafa, flestir nota Infrarauðar perur í þar til gerðum lömpum sem hengdir eru upp yfir ungunum í svo sem 50 - 60 cm. hæð, en ungarnir finna fljótt út hvar hitinn er hæfilegur undir perunni ef þeir hnappa sig saman í miðjum geislanum þá er peran of hátt en ef þeir liggja í hring utan við geislann er hún of lágt, best er að þeir liggi utantil í geislanum en séu ekki alveg inn að miðju. Mikið ber á því hjá mér að ungarnir verði styggir af því að vera í þessu sterka rauða ljósi og væri betra að nota svo kallaða keramik lampa eða aðra hitagjafa sem gefa hita án þess að gefa frá sér ljós. Áður en ungarnir eru settir á uppeldisstaðinn er gott að koma fyrir einverju fyrir ungana að sitja á þegar þeir eru orðnir nokkurra vikna, það gætu verið t.d. fjögurra tommu borð sem eru látin liggja flöt í svo sem 60 - 70 cm. hæð. Hafið frekar litla birtu á uppeldisstaðnum, það minnkar hættuna á því að ungarnir kroppi hver í annan.

Á gólfinu þurfa að vera spænir eða sag. Gott er að leggja dagblöð á gólfið til að gefa fyrstu gjafirnar á en matartrog verða líka að vera til staðar passið bara að þau séu þannig gerð að ungarnir nái að éta úr þeim. Vatnsdallar eru oftast smá vandamál fyrstu dagana en ungarnir mega hvorki blotna né drekkja sér í þeim. Ungafóður 1 fyrir lífkjúklinga er notað og gefið frjálst þannig að ungarnir hafi alltaf aðgang að fóðrinu. Ungafóður 1 er með lyfi gegn hníslasótt og má því ekki gefa varphænum né öðrum dýrum það og er það sérstaklega hættulegt fyrir hesta. Grófur sandur ætti alltaf að vera aðgengilegur.

Þegar ungarnir eru farnir að setjast upp á kvöldin er kominn tími til að slökkva á hitagjöfum en best er að venja þá við áður með því að slökkva einhvern tíma á daginn. Byrja t.d. á 1/2 klst. og smá lengja tímann sem slökkt er. Ef hitinn er tekinn af áður en ungarnir eru farnir að sitja uppi er mikil hætta á að þeir hrúgist saman og meira eða minna ungum kafni undir hrúgunni.

Um svipað leiti og ungarnir fara að sitja uppi er komið í ljós hvað af ungunum eru hanar, best er að tína þá frá í myrkrinu en nota lítið vasaljós, þannig grípur ekki mikil mikil skelfing um sig í hópnum á meðan hanarnir eru tíndir frá og allt verður eðlilegt daginn eftir.

Um átta vikna aldurinn er skipt yfir á ungafóður II fyrir lífkjúklinga og áfram er það gefið frjálst. Skammtið aldrei fóður fyrir unga í uppvextinum.

Þegar ungarnir eru um það bil 12 vikna er kominn tími til að flytja þá í hænsnahúsið en áður en það er gert er gott að vera búinn að venja þá við venjulegt varpfóður þannig að umskiftin verði ekki of snögg. Sjáið um að setja eitthvað í hænsnahúsið t.d. pallettur sem lagðar eru upp að veggjunum, þannig að ungarnir geti skýlt sér fyrir árásum fullorðnu fuglanna sem örugglega láta þá ekki í friði fyrstu dagana, fóður og vatn getur líka verið aðgengilegt fyrir ungana á bak við palletturnar.

Þeir sem hafa aðstöðu til þess ættu að prófa að láta hænu eða hænur unga út. Egg sem sett eru undir hænu þurfa að vera svo til ný og fyrir alla muni hrein (alls ekki þvegin), þau eru svo sett undir hænuna þegar hún er lögst á og búin að liggja í svo sem tvo daga. Hún ætti að geta legið á 8 - 10 eggjum. Hænunni þarf að koma fyrir á stað sem hinar hænurnar geta ekki komist til hennar og ætti hreiðrið að vera í kassa á gólfinu þannig að ungarnir komist sjálfir úr kassanum og í hann aftur þegar þeir fara að hreyfa sig, svo sem sólarhring eftir að þeir koma úr eggjunum. Hjá hænunni þarf að vera bæði fóður og vatn og ætti það að vera það langt frá hænunni að hún þurfi að fara af eggjunum til að éta og drekka. Látið hænuna vera sem mest afskiptalausa, hún sér um þetta sjálf. Þegar ungarnir koma er fóðrinu skipt yfir í ungafóður I og passað að fóðrið sé í ílátum sem ungarnir komast í og vatnsílátið þannig að ekki sé hætta á að ungarnir geti drekkt sér í því. Fljótlega má fara að gefa eitthvað grænt s.s. arfa sem er klipptur niður fyrir þá.


Til baka